Samantekt um þingmál

Málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir

782. mál á 153. löggjafarþingi.
Félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Markmið

Að sameina alla þjónustu sem snýr að innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd hjá einni stofnun með það í huga að ná meiri skilvirkni en nú þykir vera í málaflokknum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að Fjölmenningarsetur verði lagt niður og að Vinnumálastofnun taki við hlutverki, verkefnum, réttindum og skyldum, eignum og skuldbindingum Fjölmenningarseturs. Með sameiningunni munu innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd geta leitað á einn stað og sótt þar þá þjónustu sem þeim stendur til boða sem mun einfalda og auka skilvirkni samstarfs ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum. Þá er lögð til breyting á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir sem á að tryggja að sameinuð stofnun reki á hverjum tíma a.m.k. eina þjónustustöð á Austurlandi, höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Suðurlandi, Suðurnesjum, Vestfjörðum og Vesturlandi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um málefni innflytjenda, nr. 116/2012.
Lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt óbreytt.


Síðast breytt 29.08.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.